fbpx
28. febrúar 2019

Eignaumsjá fær Svansvottun fyrir daglegar ræstingar

Eignaumsjá hefur fengið afhent Svansleyfi fyrir daglegar ræstingar fyrirtækisins. Eignaumsjá er lítið fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað 2005 og hófst vinna við Svansvottun á síðasta ári. Fyrirtækið hefur unnið markvisst að því að skipta út efnum til að auka hlutfall vottaðra efna og notar nú næstum einungis vottuð efni í daglegum ræstingum. Einnig hefur verið sett áhersla á virka innleiðingu gæðahandbókar til að ná viðmiðum Svansins.

Í viðmiðum Svansins fyrir ræstiþjónustur er lögð áhersla á bæði umhverfi og heilsu starfsfólks, enda getur mikil efnanotkun fylgt ræstingum. Með því að nota í auknum mæli umhverfisvottuð efni til ræstinga eru skaðleg efni lágmörkuð þar sem mörg efni sem eru algeng í ræstivörum eru bönnuð í vottuðum vörum. Þetta á til dæmis við um efni sem geta verið hormónaraskandi, ofnæmis- og krabbameinsvaldandi svo eitthvað sé nefnt. Vottun Svansins nær einnig til fleiri þátta svo sem magns efna sem notast er við í ræstingum, þjálfun starfsfólks og innkaupaferla. Það þarf því að horfa til margra þátta til að hljóta Svansvottun, enda er Svanurinn lífsferilsmerki sem skoðar heildstætt það sem vottað er.
Umhverfisstofnun, sem sér um svansvottunina hér á landi, óskar Eignaumsjá innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum við til áframhaldandi samstarfs.

Fleiri fréttir