fbpx
12. maí 2022

Fjöldi Svansvottaðra bygginga tvöfaldast

Uppbygging Svansvottaðra byggingar heldur áfram á Norðurlöndunum, en nú hefur fjöldi þeirra nærri tvöfaldast á 2 árum. Þróunin á Íslandi er jafnvel enn hraðari, þar sem fjöldi íbúðaeininga í ferli hefur þrefaldast á sama tíma. 

Ný samantekt frá Norræna Svaninum sýnir áframhaldandi vöxt í uppbyggingu á Svansvottuðum byggingum á Norðurlöndunum. Í byrjun árs voru tæplega 66.000 Svansvottaðar íbúðir, einbýlishús og skólar annað hvort tilbúin eða í byggingu og er þetta tvöföldun frá stöðunni í janúar 2020. Þróunin á Íslandi er sambærileg, ef ekki hraðari, en samantektin sýnir að í dag eru um 90 Svansvottaðar íbúðir, einbýlishús og skólar á Íslandi í byggingu. Í byrjun árs 2020 voru aðeins 36 í byggingu.

Þessi aukning og áframhaldandi áhugi er mjög jákvæður og við finnum virkilega fyrir að Svanurinn hefur fengið byr undir báða vængi með innkomu byggingariðnaðarins í Svansfjölskylduna. Við metum það þó þannig að þetta sé ennþá bara toppurinn á ísjakanum. Það eru mörg mjög stór verkefni sem eru að detta inn til okkar á þessu ári og margir stórir aðilar sem hafa sýnt vottunarferlinu áhuga”, segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins á Íslandi.

Mikill eftirspurn frá fjármálastofnunum

Uppsveiflan er ekki einungis sýnileg í byggingargeiranum heldur er einnig aukinn áhugi og áhersla hjá fjárfestum og fjármálastofnunum. Á síðustu árum hefur færst í aukanna að fjármálastofnanir rýni sínar fjárfestingar og lánakjör með tilliti til umhverfismála, enda besta leiðin fyrir þessa aðila til að draga úr losun í sínum rekstri. Þessi þróun er líka sýnileg á Íslandi þar sem til dæmis bankarnir hafa keppst við að þróa bætt lánakjör bæði fyrir byggingaraðila sem vinna að vottuðum byggingum, en einnig fyrir einstaklinga sem velja að kaupa vottaðar íbúðir.

Greining á því hvaðan peningur kemur og hvert hann fer er mjög mikilvægt tól í því að tryggja græn umskipti og þarna þurfa fjármálastofnanir og fjármögnunaraðilar að leggja sitt af mörkum. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum bæði frá bönkum og sjóðum sem eru að leita leiða til að setja sér sjálfbæran fjárfestingarramma og með því bjóða sínum kúnnum bætt kjör. Það liggur mjög beint við að nýta sér Svaninn í slíka vinnu þar sem vottunin er óháð og nær yfir allan vistferill og alla helstu umhverfisþætti”, segir Elva Rakel.

Um Svaninn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn er verkfæri til að ýta undir innleiðingu hringrásarhagkerfisins, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í dag þekkja um 88% Íslendinga Svaninn.

Viðmið Svansins fyrir einstaka vöruflokka, t.d. nýbyggingar, eru endurskoðuð reglulega og hert. Þetta tryggir að kröfurnar sem við setjum byggi á nýjustu vitneskju og taki tillit til þróunar á markaðnum. Viðmiðin fyrir nýbyggingar voru endurskoðuð árið 2021 og er gert ráð fyrir því að uppfærð viðmið taki gildi um áramótin 2022/2023.

Svansvottun bygginga á Norðurlöndunum

  • Á tvemur árum – frá janúar 2020 til janúar 2022 – hefur fjöldi Svansvottaðra íbúða, húsa og skóla sem eru tilbúin eða í byggingu næstum tvöfaldast á Norðurlöndunum
  • Miðað við 1.janúar 2022 voru um 23.000 Svansvottaðar byggingar á Norðurlöndunum í notkun og um 43.000 í byggingu. Tölurnar miða við íbúðaeiningar.

Hvað einkennir Svansvottaðar byggingar:

  • Strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru
  • Góð innivist með góðri loftræsingu og hljóðvist
  • Lágmarks losun gróðurhúsalofttegunda í öllum líftíma byggingar
  • Hagkvæma orkunotkun með áherslu á orkusparnað
  • Gæðastjórnun í öllu byggingarferlinu
  • Rekstrar- og viðhaldsáætlun fyrir líftíma byggingarinnar

Nánar um Svansvottun bygginga.

Fleiri fréttir