Byggingar

Mikil umhverfisáhrif fylgja byggingargeiranum, en í Svansvottun húsnæðis er markvisst unnið að því að minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna, meðal annars með kröfum um lága orkunotkun hússins og ríka áherslu á öruggari og umhverfisvænni efni. Losun efna úr mismunandi byggingarefnum og hlutum er almennt vanmetin og skipta gæði innivistar miklu máli fyrir almenning sem ver um 90% af tíma sínum innandyra. Þannig felast mörg tækifæri í því að taka tillit til umhverfisþátta strax við hönnun bygginga.

Meginmarkmið Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur.

Viðmiðin

Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar voru tekin í notkun 2003 og byggist á tilteknum fjölda skyldukrafna ásamt stigakerfi þar sem þarf að ná lágmarksfjölda stiga til að hljóta vottunina. Ekki eru gefnar einkunnir líkt og í öðrum vottunarkerfum sem þekkjast hérlendis. Ef byggingin stenst allar skyldukröfur, þ.m.t. lágmarks fjölda stiga telst hún Svansvottuð. Helstu áherslur í viðmiðunum eru:

  • strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í byggingaog efnavöru,
  • tryggja góða innivist með góðri loftræstingu og hljóðvist,
  • byggingin sé með hagkvæma orkunotkun með áherslu á orkusparnað,
  • tryggja gæðastjórnun í byggingarferlinu,
  • gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar fyrir líftíma byggingarinnar

Hvað er hægt að votta

  • Einbýlis-, par- og raðhús
  • Fjölbýlishús
  • Leik- og grunnskólabyggingar
  • Þjónustuíbúðir – Sumarbústaðir

Umsóknargjald

  • 425.000 + 680/m2 fyrir nýbyggingar og endurbætur

Tengiliður

Guðrún Lilja Kristinsdóttir

Sérfræðingur

g.lilja.kristinsdottir@ust.is

591 2000