Byggingar
Mikil umhverfisáhrif fylgja byggingargeiranum, en í Svansvottun húsnæðis er markvisst unnið að því að minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna, meðal annars með kröfum um lága orkunotkun hússins og ríka áherslu á öruggari og umhverfisvænni efni. Losun efna úr mismunandi byggingarefnum og hlutum er almennt vanmetin og skipta gæði innivistar miklu máli fyrir almenning sem ver um 90% af tíma sínum innandyra. Þannig felast mörg tækifæri í því að taka tillit til umhverfisþátta strax við hönnun bygginga.
Meginmarkmið Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur.
Einnig er hægt að votta rekstur og viðhald bygginga sem tekur á orkunotkun, aðlögun að loftslagsbreytingum, innivist og fleira.
Viðmiðin
Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar voru fyrst tekin í notkun 2003 og byggist á tilteknum fjölda skyldukrafna ásamt valkröfum þar sem þarf að ná lágmarksfjölda stiga til að hljóta vottunina. Ekki eru gefnar einkunnir líkt og í öðrum vottunarkerfum sem þekkjast hérlendis. Ef byggingin stenst allar skyldukröfur, þ.m.t. lágmarks fjölda stiga telst hún Svansvottuð. Helstu áherslur í viðmiðunum eru:
- Strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru
- Góð innivist tryggð með góðri loftræsingu og hljóðvist
- Hagkvæma orkunotkun með áherslu á orkusparnað
- Lækkun kolefnisspors framkvæmdarinnar og byggingarefna
- Tryggja gæðastjórnun í byggingarferlinu
- Áhersla á hringrásarhagkerfið og flokkun úrgangs
- Gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar fyrir líftíma byggingarinnar
Hvað er hægt að votta?
- Íbúðarhúsnæði, þ.m.t. þjónustuíbúðir, hjúkrunar- og dvalarheimili
- Skólabyggingar þ.m.t. leikskólabyggingar
- Skrifstofuhúsnæði
- Byggingar sem hýsa ráðstefnurými
- Hótelbyggingar
- Heilsustofnanir og heilsugæslur
- Heimili þar sem íbúar dvelja í lengri eða skemmri tíma, svo sem meðferðarheimili, hjúkrunarheimili ofl.
Byggingum sem er breytt er í eitthvað af ofantöldu.
Umsóknargjald
Kostnaður við Svansvottun nýbygginga og endurbóta skiptist í umsóknargjald og fermetragjald.
Innheimtan er þrískipt; umsóknargjald er innheimt þegar sótt er um (525.000), helmingur af fermetragjaldi er innheimt við upphaf byggingartíma og síðari helmingur fermetragjalds er innheimt við lok byggingartíma.
- Umsóknargjald er 525.000 ISK
- Fermetragjald uppað 20.000 m2 er 680 ISK/m2
- Fermetragjald eftir 20.000 m2 er 340 ISK/m2
Gildistaka útgáfu 4 - 2023/2024
Ný viðmið fyrir nýbyggingar hafa tekið gildi, það er 4. útgáfa.
Aðilar sem sækja um fyrir 28. febrúar 2023 geta áfram sótt um í útgáfu 3 óháð tímaramma verkefnisins. Aðilar sem sækja um eftir þann tíma þurfa að sýna fram á að framkvæmdir hefjist fyrir 30. september 2024 ef þeir ætla að sækja um í útgáfu 3 en ef framkvæmdir hefjast eftir þann tíma er einungis hægt að sækja um í útgáfu 4.
Einhverjar breytingar verða á kröfum fyrir samþykktum byggingarefnum en hins vegar var tekin ákvörðun um að takmarka þær breytingar eins og hægt er til að einfalda vinnuna við að fá vörur aftur samþykktar.
Byggingarvörur sem hafa fengið samþykki til notkunar í Svansvottuðum byggingum eru núna með gildistíma til 30. september 2026 en eftir þann tíma þarf að sækja aftur um samþykki fyrir öllum byggingarvörum.
Nýbyggingar, útgáfa 4 - ítarefni
Nýbyggingar, útgáfa 3 - ítarefni
Endurbætur bygginga - ítarefni
Efnissamþykktir
Rekstur og viðhald bygginga
Tengiliður
Bergþóra Kvaran
Sérfræðingur
bergthorak@ust.is
591 2000
Reynslusaga
Ragnhildur Helgadóttir
Gæðastjóri – Mannverk
Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar þjónustu?
Mannverk hefur frá upphafi haft þá sýn að gera byggingariðnaðinn umhverfisvænni og þegar leitað var til okkar með byggingu á fyrsta umhverfisvottaða húsinu á Íslandi fannst okkur það skemmtileg áskorun sem smellpassaði við stefnu fyrirtækisins. Mannverk var einnig vel í stakk búið að ganga í gegnum vottunarferli frá þriðja aðila þar sem gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins er ISO 9001 vottað.
Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?
Mannverk hefur skapað sér sérstöðu sem byggingaraðili vistvænna húsa og við erum stolt af því að hafa rutt brautina fyrir byggingu fleiri vistvænna húsa á Íslandi. Vottun af þriðja aðila eykur tiltrú og traust viðskiptavina og er ákveðin trygging fyrir því að vistvænum ferlum sé framfylgt í byggingarferlinu. Það gefur Mannverk ákveðið samkeppnisforskot sem vonandi skilar sér í fleiri sambærilegum verkefnum. Verktakargeirinn á Íslandi er hins vegar seinn að taka við sér í þessum málum og í tilboðsverkefnum ræður krónutalan för fremur en gæða- og umhverfismál, þvi miður.
Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?
Sannarlega. Þessu fylgir lærdómsferli sem fyrirtæki búa áfram að og geta tekið með sér í áframhaldandi framkvæmdir. Kosturinn við Svansvottun er að kröfur eru lagaðar að íslenskum aðstæðum og því vel gerlegt fyrir byggingariðnaðinn að taka þessi umhverfisvænu skref. Við finnum fyrir því í auknu mæli að markaðurinn er að kalla eftir umhverfisvænni lausnum og því getur þetta skapað samkeppnisforskot fyrir þá aðila sem fara grænar leiðir.
Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?
Ég sé fyrir mér að eftirspurnin eftir umhverfisvænum byggingum muni aukast í framtíðinni enda er fólk sífellt meðvitaðri um loftlags- og umhverfismál og heilsufarslegan ávinning þess að búa í vistvænum húsum. Framþróun í Svansvottuninni finnst mér einkum snúa að fræðslu og upplýsingagjöf. Í takt við það má búast við að þekking á úrlausnum á þeim kröfum sem gerðar eru í vottunarferlinu verði almennari og jafnvel komnar inn í byggingareglugerðir þegar fram líða stundir. Sú þróun er nú þegar komin lengra víða í Evrópu þar sem opinberir aðilar eru farnir að setja kröfu um umhverfisvænar nýbyggingar.