fbpx
4. janúar 2022

Fyrir hvað stendur Svansmerkið?

Uppruni Svansins

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem komið var á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum.

Svanurinn var stofnaður í lok níunda áratugarins í kjölfarið af því að á þeim tíma voru mörg fyrirtæki farin að miðla sínu umhverfisstarfi og nokkuð bar á því að fyrirtæki settu fram sín eigin merki til votts um það. Sú þróun skapaði ringulreið hjá neytendum sem gátu ómögulega vitað hverju hægt væri að treysta og hvað lá að baki þessara merkinga. Því var ákveðið að stofna opinbert umhverfismerki Norðurlandanna, Svansmerkið, sem væri áreiðanlegt og ekki rekið í hagnaðarskyni.

Svansmerkið er í raun ríkisfyrirtæki og fara tekjur í framþróun viðmiðaflokka, svo sem að endurskoða og uppfæra núrverandi kröfur út frá nýrri þróun og þekkingu, þróa ný viðmið fyrir þjónustur og vörur og einnig leggur Svanurinn ríka áherslu á fræðslu og upplýsingar um sjálfbæra neyslu til neytenda og fyrirtækja.

 

Lífsferilsmerki – frá vöggu til vöggu

Svansmerkið er lífsferilsmerki sem þýðir að í allri viðmiðaþróun er leitast við að hanna kröfur sem taka á öllum lífsferli vörunnar eða þjónustunnar sem um ræðir.

Kröfur Svansins tryggja að vottuð vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna, með því að:

  • skoða allan lífsferilinn og skilgreina helstu umhverfisþætti
  • setja strangar kröfur um helstu umhverfisþætti sem skilgreindir hafa verið svo sem; efnainnihald og notkun skaðlegra efna, flokkun og lágmörkun úrgangs, orku- og vatnsnotkun, og gæði og ending
  • passa að þekkt hormónaraskandi og ofnæmis- eða krabbameinsvaldandi efni séu ekki notuð
  • herða kröfurnar reglulega þannig að Svansvottaðar vörur og þjónusta séu í stöðugri þróun

Til þess að vara eða þjónusta geti hlotið Svansvottun verður norræni Svanurinn að hafa mótað sértækar kröfur fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustuflokk. Í dag eru viðmiðaflokkarnir um 60 talsins. Svanurinn er umhverfismerki af Týpu 1 samkvæmt ISO 14024 umhverfisvottunarstaðlinum og er einn af stofnmeðlimum Global Ecolabelling Network.

Samkvæmt neytendakönnunum þekkja um 90% Íslendinga Svansmerkið. Þekkingin hefur aukist mjög hratt síðustu ár og er þekking landsmanna á merkinu nú á pari við hin Norðurlöndin.

Grænt samkeppnisforskot

Svansvottun er fyrst og fremst skýr og metnaðarfull leið fyrir fyrirtæki til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið með kerfisbundnum hætti. Svanurinn gerir ríkar umhverfiskröfur til þeirra sem sækjast eftir Svansvottun og þeim kröfum þarf að viðhalda til að missa ekki vottunina.

Svanurinn er líka sterkt umhverfismerki til þess að skapa sér sérstöðu á samkeppnismarkaði. Sú ímyndarsköpun sem fylgir Svansvottun getur laðað að sér ekki einungis nýja viðskiptavini heldur einnig starfsfólk sem hefur metnað fyrir umhverfismálum. Svanurinn getur því verið leið til þess að auka skilning á umhverfisþáttum rekstursins sem hefur yfirleitt í för með sér rekstrarsparnað þar sem innkaup eru einfölduð og gerð skilvirkari.

Svanurinn og Heimsmarkmiðin

Svansmerkið er einnig leið til að vinna að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem eru mjög mikið í umræðunni núna og orðinn stór kröfuhluti í opinberum útboðum, styrkjum í nýsköpun og þróun o.s.frv. Á myndinni hér að neðan má sjá Svansmerkið við þau markmið sem Svanurinn stuðlar að. Fyrst og fremst er það markmið númer 12 um sjálfbærari framleiðslu og neyslu. Kröfur sem Svanurinn gerir til Svansvottaðrar vöru og þjónustu á borð við ræstifyrirtæki, veitingastaði, hótel, nýbyggingar, hreinlætisvörur og textílvörur og svo mætti lengi telja, styðja við markmið á borð góða heilsu, hreint vatn, minni loftslagsáhrif, sjálfbærar borgir, verndun vistkerfa og líffræðilegan fjölbreytileika.

 

Fleiri fréttir