fbpx
12. janúar 2021

Fyrstu Svansvottuðu kaffihúsin

Marta Rut Pálsdóttir, rekstrarstjóri hjá Kaffitár

Reynslusaga Kaffitárs af Svansvottuninni

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar vöru/þjónustu?

Það að vera umhverfisvæn eða þannig þenkjandi er eiginlega inngróið í menningu Kaffitárs, frá byrjun höfum við t.d flokkað rusl, allar flöskur og dósir sem falla frá á kaffihúsunum fara til Þroskahjálpar, við styrkjum á hverju ári fjölda samtaka sem tengjast fólki með þroska hömlun, sinna starfsemi barna og kvenna, Kaffitár hefur einnig verið stuðningsaðili lista- og menningarviðburða, við styrkjum ýmsa atburði sem tengjast menntun og nýsköpun og við styrkjum menntamál og heilbrigðismál í kaffiræktunarlöndum. Auk þess kaupum við 80% af kaffinu okkar beint af bónda, sem ásamt því að tryggja okkur gæði, tryggir bóndanum hærra verð og að meira í hans vasa.

Svansvottunin var einhvern vegin eðlilegt áframhald á því starfi sem við vorum að vinna og riðum við á vaðið árið 2010 að fá vottunina, en kaffihús okkar voru fyrst hér á landi til að fá vottun umhverfismerkis Svansins. Vottunin hjálpar og hvetur okkur að vinna áfram með umhverfismál.

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

Svanurinn er nokkuð vel þekkt umhverfismerki á Íslandi og sífellt fleiri fyrirtæki að bætast í hópinn, það er verðmæti fólgið í því að merkja fyrirtækið með þessu umhverfismerki.   Svansmerkið er trygging fyrir því  að umhverfisstarf fyrirtækisins sé í föstum skorðum, bæði gagnvart viðskiptavinum og starfsmönnum.

Notkun Svansmerkisins auðveldar markaðsetningu á umhverfisstarfi fyrirtækisins bæði innri og ytri, skapar samkeppnisforskot og styrkir jákvæða ímynd Kaffitárs.

Viðmið Svansins krefjast þess að notkun einnota umbúða sé í lágmarki,og flokkað sé ítarlega t.a.m. lífrænt, pappi,plast, ál og önnur spilliefni og að notuð séu umhverfismerkt hreinsiefni  (og skömmtunarleiðbeiningar til að lágmarka notkun efnanna).  Einnig að fyrirtækið setji sér markmið til að ná betri og meiri árangri ár hvert í ofan töldu og einnig orku og vatnsnotkun.  Það tryggir að neikvæðum umhverfisáhrifum af rekstri kaffihúsanna er haldið í lágmarki.

Svanurinn krefst þess að haldið sé utan um öll gögn því til sönnunar að markmiðum hafi verið náð og viðmið uppfyllt, þ.e. mælanlegur árangur.  Þar af leiðandi er mikið aðhald og eftirfylgni í því að viðmiðum sé fylgt og að það sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og viðmiða Svansins við flestar ákvarðanir.

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

Innleiðingarferlið tók u.þ.b. 2 mánuði hjá okkur á sínum tíma, En ég mæli alveg hiklaust með þeirri vinnu til að fá vottunina, því fólk er alltaf að verða meðvitaðra um svaninn og almennt um umhverfið sitt, og sífellt fleiri kjósa að finna vörur og fyrirtæki sem hafa svansvottunina. Við erum líka mikið meðvitaðri um umhverfisáhrif alls sem við gerum og hefur það áhrif á ákvarðanir varðandi reksturinn á fyrirtækinu, og komandi kynslóðir eru mjög meðvitaðar um neikvæð umhverfisáhrif fyrirtækja.

Það að fylgja eftir viðmiðum Svansins á kaffihúsum krefst ekki neins aukalega af tíma starfsmanna,.  Aðal vinnan er í reglulegum skráningum og utanumhaldi á gögnum og krefst þess að nokkrar deildir í fyrirtækinu taki þátt í þeirri vinnu.

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

Ég vonast til að fleiri fyrirtæki í okkar geira sjái hag sinn í að fá vottun og að kröfunar sem gerðar eru í vottuninni verið „norm“ í framtíðinni. Neytendur gera alltaf meiri kröfur til fyrirtækja að sinna samfélagslegum skyldum sínum eins og í umhverfismálum og er það af hinu góða.

Fleiri fréttir