fbpx
22. mars 2018

Hreint lýkur endurvottun Svansins

Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, afhenti ræstiþjónustunni Hreint endurnýjað leyfi Svansins þann 20.mars s.l. Ræstiþjónustan varð þar með annað fyrirtækið sem lýkur endurvottun Svansins fyrir ræstiþjónustur. Hreint er ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins, en fyrirtækið var stofnað 1983.

Ræstingar Hreint hafa verið með Svansvottun síðan 2010. Frá því að fyrirtækið hlaut fyrst vottun Svansins hafa öll gagnaskil verið til fyrirmyndar hjá fyrirtækinu og greinilegt að Svanurinn er kjarnaþáttur í rekstri fyrirtækisins. Við endurvottunina var greinilegt að fyrirtækið nýtir Svaninn í daglegum rekstri, meðal annars sem tæki til að fylgjast með innkaupum og tryggja gæði í ræstingum.

Til að hljóta vottun Svansins þarf ræstiþjónusta að hafa lágmarkað efnanotkun, lágmarkað eldsneytisnotkun í rekstri, hámarkað hlutfall umhverfisvottaðra efna og hætt notkun á efnum sem geta verið skaðleg umhverfinu og heilsu manna svo eitthvað sé nefnt. Einnig er lögð áhersla á fræðslu og leiðbeiningar til starfsfólks og að fyrirtækið sé með ferill til að tryggja gæði þjónustunnar.

Umhverfisstofnun óskar Hreint til hamingju með áfangann og þakkar samstarfið.

Á myndinni taka Ari Þórðarson framkvæmdastjóri og Guðbjörg Erlendsdóttir gæðastjóri við leyfinu úr hendi Kristínar Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar.

Fleiri fréttir