6. desember 2024
Jólin, hátíðin okkar… og umhverfisins
Jólin eru hátíð ljóss og friðar – en þau þurfa alls ekki að vera hátíð neyslunnar. Við minnum fólk á að það að oft er það mikilvægasta við hátíðirnar að verja tíma með fjölskyldunni og gera eitthvað skemmtilegt.
Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkur góð ráð hvernig hægt er að hafa það náðugt um jólin á aðeins sjálfbærari hátt.
Gefið grænni gjafir
Gjafir eru órjúfanlegur hluti jólanna – en auðvelt er að gefa aðeins umhverfisvænni gjafir frekar en að kaupa nýja hluti, sem ekki er víst að vanti.
Innihaldið
- Gefið notað. Fólk veigrar sér stundum við að gefa gjafir sem hafa átt sér fyrra líf, en bæði viðtakanda og fyrri eiganda gæti vel þótt vænt um að geta gefið vörunni áframhaldandi líf.
- Gefið upplifanir. Samvera með þínum nánustu er það sem einkennir jólahátíðirnar hjá mörgum, og tilvalið að framlengja fjörið með samverustund í jólapakkann. Minningarnar ylja oft lengur en veraldlegir hlutir.
- Gefið heimagert. Matur, föndur eða annað heimagert eru persónulegar gjafir sem fólk metur oft mikils.
- Gefið minna. Þarf að gefa gjöf fyrir ákveðna upphæð, eða af einhverri ákveðinni stærð? Skoðið málið. Ákveðnir viðtakendur væru mögulega frekar til í að fara saman út að borða eða að lækka gjafaþröskuldinn.
- Gefið vottað. Vitið þið hvað hægt er að fá margar Svansvottaðar vörur á Íslandi? Sjáið listann hér og veljið umhverfisvænni gjöf.
Innpökkunin
- Geymið pappírinn frá jólunum á undan og endurvinnið að ári liðnu.
- Nýtið fréttablöð sem fallið hafa til, til innpökkunar.
- Áttu tilfallandi efnisbúta, gömul handklæði eða sængurver? Það má nýta til innpökkunnar.
- Geturðu nýtt gjöfina sjálfa til að pakka inn? Þá er tilvalið að sleppa auka lagi.
Umhverfisvænna jólaskraut
Jólastemningin og birtan kemur með skrautinu. Hvernig getum við gert það umhverfisvænna?
Ljósin
- LED jólaseríur nota 80% minna rafmagn í notkun og endast allt að 25 sinnum lengur.
- Kerti skapa huggulega stemningu, en geta þó mengað inniloftið. Skoðið hvort LED rafmagnskerti skapi sömu stemningu, eða kaupið Svansvottuð kerti sem eru betri fyrir umhverfi og heilsu. Sjáið hvar þau fást hér. Munið svo að athuga rafhlöðurnar á reykskynjaranum – öryggisins vegna.
Skrautið
- Notið það sem er til og gerið við ef þarf.
- Nýtið náttúruna í skreytingarnar. Greinar og könglar geta verið fallegt skraut.
- Föndrið úr pappír sem til fellur.
- Ef þið viljið kaupa skraut, athugið fyrst hvort þið finnið notað.
Jólamaturinn – grænn og vænn
Má breyta jólamatnum örlítið? Það gæti verið gott fyrir þig og umhverfið.
- Viljiði minnka kolefnissporið? Prófið að skipta út einhverjum kjötrétti út fyrir grænmetisrétt. Hnetusteik og grænkera wellington eru jafn hátíðleg og aðrir jólaréttir. Einnig er hægt að minnka bara hlutfall kjöts á jólaborðinu og bjóða upp á meira af gómsætu meðlæti úr plönturíkinu.
- Veljið lífrænt. Lífræn framleiðsla notar mun minna skordýraeitur og er því betra fyrir þig og fjölskylduna, sem og umhverfið.
- Minnkið matarsóunina með því að skipuleggja máltíðirnar vel. Afgangarnir af jólamatnum eru frábærir, og jafnvel hægt að setja þá í annan búning.
- Munið eftir Svansvottaða bökunarpappírnum fyrir bakstur og eldamennsku.
Jóladress – ekkert umhverfis-stress
Áttu eftir að finna kjólinn fyrir jólin? Það er ekkert mál að gera það án mikils álags á umhverfið:
- Kíkið fyrst í skápana heima. Er eitthvað þar sem þú hefur ekki notað lengi? Það er allt í lagi að klæðast sömu fötum tvö, þrjú eða fjögur jól í röð.
- Getiði fengið lánuð föt frá fjölskyldu eða vinum? Jafnvel skipst á jólafötum? Þannig fá báðir aðilar ný föt fyrir jólin!
- Ef ekkert er að finna þar þá getiði skoðað fataleigur sem eru orðnar þónokkrar á Íslandi. Á slíkum leigum getiði leigt fötin út í fáa daga og svo skilað og þá getur næsta manneskja nýtt sér þau næstu daga hsátíðanna.
- Ef ykkur langar að eiga fötin sjálf er um að gera að byrja að leita í búðum sem selja notuð föt. Þar er ógrynni af fötum sem hægt er að gefa áframhaldandi líf.
- Ef þið endið á að kaupa ykkur nýja flík er sniðugt að leita að vottuðum fötum. Svanurinn og Evrópublómið votta fatnað, svo er GOTS einnig lífsferilsmerki sem vottar flíkur og hægt er að treysta.