MótX hlýtur Svansvottun fyrir stærsta verkefnið hingað til
MótX hlaut í dag sitt fyrsta Svansleyfi fyrir nýbyggingu að Hringhamri í Hafnarfirði. Verkefnið er eitt af þremur áföngum fyrirtækisins sem er í Svansvottunarferli en í þessum áfanga eru 36 íbúðir sem hljóta vottun og er þetta því stærsta verkefnið hingað til sem hlýtur Svansvottun hér á landi þegar kemur að íbúðareiningafjölda.
Í heildina verða 164 íbúðir vottaðar þegar öllum áföngum er lokið en fyrirtækið sýnir mikinn metnað þegar kemur að umhverfismálum og hefur meðal annars hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans vegna þessa verkefnis.
“Við hjá MótX höfum hingað til byggt töluverðan fjölda íbúða í samræmi við kröfur Svansins hvað varðar heilnæmt loft með loftræsikerfum, ljósastýringu, hljóðvist og svo framveigis og vorum við því komnir vel á veg með að uppfylla kröfur Svansins.
Það var því eðlilegt framhald af þeirri stefnu sem við vinnum eftir um að byggja betra húsnæði og taka þátt í framþróun á byggingum og máta okkur við kröfur Svnains” segir Þröstur Már Sigurðsson, verkefnastjóri hjá MótX.
“Það er ánægjulegt að veita MótX viðurkenningu í dag en þetta er stærsta verkefnið í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem fær Svansvottun. Það er ekki hægt að ná árangri sem þjóð nema þú sért með frumkvöðla og fólk í atvinnulífinu sem ákveður að vera fremst.” Segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Alls hafa 11 verkefni, bæði nýbyggingar og endurbætur hlotið vottun á Íslandi frá árinu 2017 en undanfarin ár hefur orðið áberandi vakning innan byggingargeirans á Íslandi og hefur umsóknum síðustu tvö ár fjölgað gríðarlega eins og sjá má á grafinu hér að neðan:
Af þeim verkefnum sem eru í Svansvottunarferli í dag eru um 30% þeirra staðsett í Hafnarfirði og um 45% af íbúðareiningum. Hafnarfjörður veitir afslátt af gatnagerðar- og lóðagjöldum fyrir umhverfisvottuð verkefni og er það því ljóst að slíkur fjárhagslegur hvati beri árangur.
„Það er góð langtíma fjárfesting og framsýni hjá bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði að ákveða það að veita afslátt af gjöldum þegar að menn ganga fram með þessum hætti. hver er niðurstaðan? jú það eru langflest af verkefnum í Svansvottunarferli hér í Hafnarfirði. Það er gott fyrir þjóðina, gott fyrir bæjarfélagið og verður svo langbest fyrir þá sem búa í þessum húsum“ segir Guðlaugur Þór.