fbpx
15. febrúar 2022

RæstiTækni ehf. hlýtur Svansvottun

Elva Rakel Jónsdóttir afhendir Þóri Gunnarssyni framkvæmdastjóra RæstiTækni ehf svansleyfið

Fyrirtækið RæstiTækni ehf. hlýtur í dag vottun Svansins fyrir ræstiþjónustu sína en undir þá vottun fellur regluleg ræsting fyrirtækisins. Þar með er starfsemin komin í hóp 9 ræstifyrirtækja hér á landi sem hafa hlotið þessa vottun.

RæstiTækni ehf. sem áður bar nafnið Húsfélagaþjónustan ehf. hefur verið starfrækt frá árinu 2002 og rekur starfsemi sína bæði frá höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, auk þess að ræsta líka á Reykjanesi og Selfossi. Meginstarfsemi fyrirtækisins felst í þjónustu við fyrirtæki, stofnanir og húsfélög ásamt því að sjá um ýmis sérverkefni.

Í umsóknarferlinu tók starfsfólk fyrirtækisins efnanotkunina í gegn, bæði með tilliti til hlutfalls vottaðrar efnavöru og magns efnavöru sem þau nota. Það sem einkenndi ferlið var mikil jákvæðni og drifkraftur og var fyrirtækið reiðbúið að gera þær breytingar sem þurfti til þess að standast kröfur Svansins.

Til að hljóta vottun Svansins þarf efnanotkun ræstiþjónustunnar á hvern fermetra að vera undir vissum mörkum og þurfa að lágmarki 80% efnavöru að vera umhverfisvottuð auk þess sem ákveðin efni eru bönnuð sem geta verið skaðleg umhverfinu og heilsu manna. Einnig eru kröfur um lágmörkun notkun eldsneytis á bifreiðar. Ennfremur er lögð rík áhersla á fræðslu og leiðbeiningar til starfsfólks og að fyrirtækið innleiði ferla svo tryggja megi gæði þjónustunnar.

Umhverfisstofnun óskar RæstiTækni ehf. innilega til hamingju með áfangann og hlakkar til samstarfsins næstu ár.

Fleiri fréttir