fbpx
24. apríl 2020

Reynslusaga Mannverk

Ragnhildur Helgadóttir gæðastjóri hjá Mannverk

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar þjónustu?

Mannverk hefur frá upphafi haft þá sýn að gera byggingariðnaðinn umhverfisvænni og þegar leitað var til okkar með byggingu á fyrsta umhverfisvottaða húsinu á Íslandi fannst okkur það skemmtileg áskorun sem smellpassaði við stefnu fyrirtækisins. Mannverk var einnig vel í stakk búið að ganga í gegnum vottunarferli frá þriðja aðila þar sem gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins er ISO 9001 vottað.

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

Mannverk hefur skapað sér sérstöðu sem byggingaraðili vistvænna húsa og við erum stolt af því að hafa rutt brautina fyrir byggingu fleiri vistvænna húsa á Íslandi. Vottun af þriðja aðila eykur tiltrú og traust viðskiptavina og er ákveðin trygging fyrir því að vistvænum ferlum sé framfylgt í byggingarferlinu. Það gefur Mannverk ákveðið samkeppnisforskot sem vonandi skilar sér í fleiri sambærilegum verkefnum. Verktakargeirinn á Íslandi er hins vegar seinn að taka við sér í þessum málum og í tilboðsverkefnum ræður krónutalan för fremur en gæða- og umhverfismál, þvi miður.

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

Sannarlega. Þessu fylgir lærdómsferli sem fyrirtæki búa áfram að og geta tekið með sér í áframhaldandi framkvæmdir. Kosturinn við Svansvottun er að kröfur eru lagaðar að íslenskum aðstæðum og því vel gerlegt fyrir byggingariðnaðinn að taka þessi umhverfisvænu skref.  Við finnum fyrir því í auknu mæli að markaðurinn er að kalla eftir umhverfisvænni lausnum og því getur þetta skapað samkeppnisforskot fyrir þá aðila sem fara grænar leiðir.

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

Ég sé fyrir mér að eftirspurnin eftir umhverfisvænum byggingum muni aukast í framtíðinni enda er fólk sífellt meðvitaðra um loftslags- og umhverfismál og heilsufarslegan ávinning þess að búa í vistvænum húsum. Framþróun í Svansvottuninni finnst mér einkum snúa að fræðslu og upplýsingagjöf. Í takt við það má búast við að þekking á úrlausnum á þeim kröfum sem gerðar eru í vottunarferlinu verði almennari og jafnvel komnar inn í byggingareglugerðir þegar fram líða stundir. Sú þróun er nú þegar komin lengra víða í Evrópu þar sem opinberir aðilar eru farnir að setja kröfu um umhverfisvænar nýbyggingar.

 

Kynntu þér viðmið Svansins fyrir vottun bygginga hér.

Fleiri fréttir