fbpx
25. júní 2024

Sorpa fær endurvottun Svansins fyrir metangasframleiðslu

Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins, Gyða Sigríður Björnsdóttir, umhverfis- og gæðastjóri Sorpu og Jóhannes Ólafsson, sérfræðingur í umhverfis og gæðamálum Sorpu.

Í dag fékk Sorpa bs. afhent Svansleyfi fyrir metangasframleiðslu, bæði fyrir gassöfnun frá urðunarstað og gasgerð í gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi (GAJA). Sorpa hefur verið með vottun síðan 2016 en hefur fyrirtækið nú staðist endurvottun Svansins með útvíkkun á leyfinu fyrir GAJA.

Það eru eingöngu tveir leyfishafar á Norðurlöndunum í þessum viðmiðaflokki Svansins og þetta því mjög góður árangur hjá Sorpu.

Strangar kröfur um hráefni og gæði

Svansvottað eldsneyti uppfyllir strangar kröfur um hráefni og gæði. Kröfurnar snúa að því að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika og að stuðla að minni loftslagsáhrifum. Vottunin tekur tillit til alls lífsferils metans sem framleitt er af fyrirtækinu.

Með Svansvottuninni er staðfest að framleiðsla og notkun eldsneytisins stuðli að lágmarkslosun gróðurhúsalofttegunda og að orkunotkun í framleiðsluferlinu sé í lágmarki. Vottunin er einnig háð því að eldsneytið mæti sjálfbærniviðmiðunum Evrópureglugerðar um endurnýjanlega orkugjafa og kröfum um gæði eldsneytisins.

Einnig er lögð áhersla á vinnuskilyrði á framleiðslustað.

Við óskum Sorpu bs. til hamingju með þennan áfanga og  þökkum gott samstarf í vottunarferlinu.

Fleiri fréttir