fbpx
23. mars 2021

Sprenging í Svansvottuðum nýbyggingum

Tölvugerð mynd af útliti raðhúsa í Urriðaholti. Mynd: Vistbyggð ehf.

Fjöldi Svansvottaðra bygginga hefur þrefaldast á Norðurlöndunum síðustu þrjú ár. Á Norðurlöndunum eru nú hátt í 50.000 Svansvottaðar íbúðir, einbýlishús eða skólar sem eru annað hvort tilbúin eða í byggingu.

Svansvottaðar byggingar njóta aukinna vinsælda á Norðurlöndunum og á Íslandi. Þetta kemur skýrt fram í nýrri tölfræði frá Norrænni umhverfismerkingu sem sýnir fram á að umfangið hefur þrefaldast frá byrjun janúar 2018 til janúar 2021. Í dag eru um 18.000 Svansvottaðar byggingar á Norðurlöndunum og um 31.000 til viðbótar í byggingu. Á Íslandi hefur málaflokkurinn líka stækkað mjög hratt síðustu misseri og mörg stór verkefni í farvatninu.

”Við hjá Svaninum erum ótrúlega glöð yfir viðbrögðum byggingargeirans við Svaninum og sjáum að áhugi og þekking verktaka og birgja á markaðnum er að aukast mjög hratt. Það er mjög ánægjulegt að við á Íslandi erum að sjá sömu þróun og í hinum Norðurlöndunum og virkilega gaman að bráðum verði 50.000 Svansvottaðar byggingar á Norðurlöndunum. Þetta er skýrt merki um að byggingarbransinn er farinn að hugsa meira um umhverfismálin og leggja áherslu á hringrásarhagkerfið. Það er auðvitað mjög mikilvægur liður í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og draga úr auðlindanotkun þar sem geirinn hefur í dag töluvert stór umhverfisáhrif”, segir Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi.

Þróun í fjölda Svansvottaðra íbúða, húsa og skólabygginga

Heimild: Norræna umhverfismerking, tölfræði 2018-2021

 

Stærri verkefni og hreyfingar utan höfuðborgarsvæðisins

Eftir að fyrsta verkefnið kláraðist á Íslandi fór boltinn að rúlla hérlendis. Fyrsta húsið var einbýlishús sem var byggt af Finni Sveinssyni og var ákveðið frumkvöðlaverkefni og fyrsta kynning byggingargeirans hérlendis af viðmiðum Svansins fyrir nýbyggingar. Síðan þá hefur verið veldisvöxtur í nýjum umsóknum um Svansvottuð verkefni og verkefnin sem eru undir hverri umsókn stækkað. Í dag er einungis tveimur verkefnum á Íslandi lokið, en þar undir eru 35 íbúðareiningar. Rúmlega 40 einingar í viðbót eru í byggingu eins og er og mörg verkefni að bætast við þessa dagana þar sem bygging er ekki hafin.

”Við höfum líka séð að sveitarfélögin eru byrjuð að taka við sér, Kópavogsbær er fyrsta sveitarfélagið sem sækir um Svansvottun fyrir framkvæmd á vegum sveitarfélagsins. Kársnesskóli verður fyrsta skólabyggingin á Íslandi sem fer í gegnum ferlið. Svo er núna með vorinu að klárast fyrsta verkefnið utan höfuðborgarsvæðisins þar sem Fakta Bygg er að klára parhús fyrir Þingeyjarsveit sem er staðsett á Stóru-Tjörnum. Við höfum líka verið að sjá aukinn áhuga frá stórum byggingarverktökum að taka uppbyggingu heilla íbúðahverfi í gegnum vottunina þannig að þróunin hérna heima er bara rétt að byrja” segir Elva.

Um Svaninn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn er verkfæri til að ýta undir innleiðingu hringrásarhagkerfisins, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í dag þekkja um 88% Íslendinga Svaninn.

Viðmið Svansins fyrir einstaka vöruflokka, t.d. nýbyggingar, eru endurskoðuð reglulega og hert. Þetta tryggir að kröfurnar sem við setjum byggi á nýjustu vitneskju og taki tillit til þróunar á markaðnum. Þannig stuðlar Svanurinn að sjálfbærri þróun. Gert er ráð fyrir að ný og hert viðmið fyrir nýbyggingar fari í umsagnarferli með haustinu með það að markmiði að kynna ný viðmið fyrir nýbyggingar í byrjun árs 2022.

STAÐREYNDIR UM SVANSVOTTAÐAR BYGGINGAR Á NORÐURLÖNDUNUM

  • Á þremur árum – frá janúar 2018 til janúar 2021 – hefur fjöldi Svansvottaðra íbúða, húsa og skóla sem eru tilbúin eða í byggingu næstum þrefaldast á Norðurlöndunum
  • Miðað við 1.janúar 2021 voru um 18.000 Svansvottaðar byggingar á Norðurlöndunum í notkun og um 31.000 í byggingu. Tölurnar miða við íbúðaeiningar.

HVAÐ EINKENNIR SVANSVOTTAÐAR BYGGINGAR

  • Strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru
  • Tryggja góða innivist með góðri loftræsingu og hljóðvist
  • Byggingin sé með hagkvæma orkunotkun með áherslu á orkusparnað
  • Tryggja gæðastjórnun í byggingarferlinu
  • Gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar fyrir líftíma byggingarinnar

Nánar um Svansvottun bygginga.

Fleiri fréttir