fbpx
1. júlí 2021

Umhverfisvottuð sólarvörn – hvað þýðir það?

Við neytendur erum sífellt meðvitaðri um að velja rétt og Svansvottaðar sólarvarnir eru alltaf að verða vinsælli. Þetta eru góðar fréttir fyrir umhverfið enda geta sólarvarnir sem ekki bera umhverfisvottun innihaldið alls kyns skaðleg efni sem berast að lokum út í umhverfið.

Margir velta því fyrir sér hvernig UV-vörn og önnur efni í sólarvörnum hafa áhrif á lífríki og vilja geta keypt vörur áhyggjulaust með lágmarks umhverfisáhrifum. Það er einnig þekkt að vatnsþolnar sólarvarnir eru gerðar til þess að berast vel inn í húðina og því geta efnin jafnvel borist út í blóðrás okkar. Húð barna er þynnri en fullorðinna og því er sérstaklega mikilvægt að velja sólarvörn sem hentar allri fjölskyldunni.

Það getur vafist fyrir manni að þekkja öll helstu skaðlegu efnin og ekki getum við öll gerst efnafræðingar til þess að geta valið rétt. Umhverfismerki eins og Svanurinn sem hugsa út í alla eiginleika vörunnar koma okkur þá til bjargar.

Sem betur fer hefur aukin umhverfisvitund neytenda haft í för með sér að sífellt fleiri framleiðendur vilja votta vörurnar sínar. Hér á landi sem og erlendis fást Svansvottaðar sólarvarnir frá merkjum svo sem Biotherm, Meraki og Änglamark.

Hvaða kröfur stenst Svansvottuð sólarvörn?

  • Uppfyllir strangar kröfur um notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu, m.a. um niðurbrjótanleika og uppsöfnun efnanna í náttúrunni ásamt eituráhrifa á lífverur í sjó og vatni.
  • Uppfyllir strangar kröfur um áhrif innihaldsefnanna á heilsu, m.a. ilmvötn, lyktarefni, litarefni, UV-varnir,rotvarnarefni og þekkt ofnæmis- og krabbameinsvaldandi efni.
  • Gengur lengra en lögin: engin grunuð hormónaraskandi efni samkvæmt ESB listum mega vera í vörunum svo sem oxybenzone og octinoxate.
  • Uppfyllir strangar kröfur um gerð og magn umbúða ásamt því hversu auðvelt er að klára úr vörunni, en það er bæði loftslagsvænna og kemur í veg fyrir sóun.

Fleiri fréttir