fbpx
12. nóvember 2021

Upptaka frá ársfundi Svansins

Á þriðjudaginn var fór ársfundur Svansins fram í beinu streymi og hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum.
Þema fundarins að þessu sinni voru þeir ólíku hvatar sem geta legið að baki því að fyrirtæki, einstaklingar og opinberir aðilar ákveði að ráðast í Svansvottun á sinni þjónustu eða vöru hvort sem það er ferðaþjónustufyrirtæki með gistingu og/eða veitingarekstur, nýbygging eða endurbætur á húsnæði, mötuneyti, skyndibitastaður, prentsmiðja, ræstiþjónusta, húsgagnaframleiðandi, hreinlætis- eða snyrtivöruframleiðandi, ræstivöruframleiðandi, fatahönnuður, fjárfestingarsjóður eða matvöruverslun – svo fátt eitt sé nefnt af því sem hægt er að Svansvotta.

Á fundinum fór Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svansins yfir stöðu leyfishafa í dag og þá miklu grósku sem á sér stað á íslenskum markaði þá fyrst og fremst í umhverfisvottuðum byggingum. Það er augljós þróun á markaði og fagnaðarefni hve upplýstur byggingargeirinn er orðinn um umhverfisáhrif byggingaframkvæmda og á sama tíma er verið að svara kalli kaupenda eftir umhverfis- og heilsuvænni híbýlum. Stefnumótandi ákvarðanir og fjárhagslegir hvatar hins opinbera og sveitarfélaganna hafa auk þess mikil áhrif og sést það meðal annars á því að um helmingur byggingarframkvæmda sem eru í Svansvottunarferli eru í Hafnarfirði, en sveitarfélagið ákvað árið 2019 að gefa 20-30% afslátt af lóðaverði fái framkvæmdaaðilar umhverfisvottun á nýbyggingarverkefnin.

Við fengum til okkar góða gesti sem fóru yfir ólíka hvata svo sem Íslandsbanki sem talaði um vaxtarkjör, JÁVERK sem sögðu frá af hverju þau hafa kosið að Svansvotta nýbyggingarverkefni og eins fengum við innsýn inn í umhverfisvottanir í innkaupastefnu ríkisins í erindi Ríkiskaupa. Einnig fengum við örerindi frá tveimur svansleyfishöfum – Dögum og Farfuglum – sem fóru yfir það hvað Svansvottun gefur þeim í þeirra umhverfis- og gæðastarfi.

Síðast en ekki síst sagði Bergljót Hjartardóttir, umhverfisverkfræðingur og nýr sérfræðingur Svansins, frá efnunum í umhverfi okkar en kannski fyrst og fremst fór hún yfir það hvernig við getum minnkað efnasúpuna allt í kringum okkur – fyrir umhverfið og okkar heilsu.

 

 

 

Fleiri fréttir