fbpx
3. maí 2021

Fyrirmyndar ferðaþjónusta – reynsla Farfugla

Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfugla / HI Iceland

Af hverju völduð þið að Svansvotta ykkar þjónustu?

„Með því að sækjast eftir Svansvottun á rekstri nýs Farfuglaheimilis í Laugardal fyrir 20 árum vildum við tryggja trúverðugleika og ramma utanum stöðugar umbætur á sviði umhverfismála. Í okkar huga gaf vottunin einnig samkeppnisforskot og auðveldaði markaðssetningu.

Við byrjuðum á að byggja upp gæða- og umhverfisstjórnunarkerfi fyrir reksturinn en vottun þriðja aðila var í okkar huga skilyrði fyrir því að vel tækist til. Svanurinn var lang öflugasta umhverfismerkið í heiminum og um leið raunhæfur kostur fyrir okkur.

Á þeim tíma voru nýkomin út viðmið Svansins í flokki hótela og farfuglaheimila. Þau náðu yfir umhverfisþátt okkar og rímuðu við stefnu Farfugla og sérstöðu okkar. Það lá því beinast við að sækjast eftir Svansvottun, fyrst allra farfuglaheimila á Norðurlöndunum.
Það skipti okkur líka máli að Svanurinn er norrænt merki, við getum komið okkar sjónarmiðum að þegar kröfurnar eru uppfærðar og hertar.

Farfuglar byggja á gömlum grunni sem félagasamtök þar sem sjálfbærnihugsjóninni er ætlað að skína í gegnum allt starf. Umhverfisstefna Farfugla frá því 1999 er meðal fyrstu stefna sem sett var fram af fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu.
Það styrkir okkur í slíkri vinnu að vera hluti af alþjóðasamtökum Hostelling International og sem dæmi höfum við lengi átt samleið með systursamtökum okkar í Nýja Sjálandi í stefnumótun og áherslum í umhverfisstarfi.  Okkur hefur einnig fundist við bera ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi, að styðja við nýsköpun og halda við góðum orðstír.“

Hver er ávinningurinn af Svansvottun fyrir ykkur og umhverfið?

„Það er okkar reynsla að ferlið styður við hagkvæmni í viðkvæmu rekstrarumhverfi.  Svansvottunin gefur okkur nauðsynlegt aðhald en um leið svigrúm til að vera í stöðugu umbótaferli og áhugaverðum verkefnum. Við höfum náð til nýrra markaða og öll kynning á okkar sérstöðu er gerð auðveldari.

Með því að Svansvotta Farfuglaheimilin mörkuðum við okkur sérstöðu innan íslenskrar ferðaþjónustu; ekki einungis meðal ferðamanna og samstarfsfólks heldur einnig þegar kom að því að mennta og laða til sín öflugt starfsfólk sem deilir hugsjónum og vill láta gott af sér leiða.

Við erum stolt af því að styðja við nýsköpunarstarf á sviði umhverfismála. Við lítum svo á að það sé hlutverk okkar að deila þekkingu og reynslu og hafa áhrif á gestina okkar til góðs, margir þeirra eru hér í fyrsta sinn að heiman í för með fjölskyldu eða hópnum sínum.

Hjá Umhverfisstofnun höfum við fengið hvatningu og sérfræðiráðgjöf til að vinna eftir okkar leiðum. Slíkt réttlætti í okkar huga kostnaðinn við vottunina. Reynslan af samstarfi við önnur Svansvottuð fyrirtæki hefur veitt innblástur.“

Mælir þú með því að fara í gegnum Svansvottunarferlið?

„Ég geri það sannarlega og mæli með að gefinn sé góður tími í verkefnið í byrjun og umbótaferlið sem það hrindir af stað. Við sjáum ekki eftir þeim tíma því hann styrkti þátttöku og skilning lykilfólks, áhuga starfsfólks og ýmisskonar umbætur sem skiluðu sér í marktækri aukningu á ánægju gesta.“

Hvaða framþróun á Svansvottuninni sérð þú fyrir þér í framtíðinni?

„Þegar við opnuðum Loft, nýja Farfuglaheimilið okkar í Bankastræti árið 2013, höfðum við unnið eftir viðmiðum Svansins við hönnun og byggingu. Í raun kom aldrei annað til greina en að sækjast eftir Svansvottun á reksturinn. Nú getum við því státað af Svansvottun á alla okkar starfsemi sem auðveldar einnig allt kynningar- og markaðsstarf.“

Fleiri fréttir