fbpx
22. mars 2019

Fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi

Eignarhaldsfélagið Skip ehf. hlýtur í dag vottun norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir fjölbýlishús að Urriðaholtsstræti 10-12, Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, afhenti eigendum hússins þeim Sigurði Gísla og Jóni Pálmasonum leyfið. Húsið er smáíbúðahús og er fyrsta húsið sinnar tegundar til að hljóta Svansvottun á grundvelli viðmiða fyrir nýbyggingar og er jafnframt fertugasta leyfið sem Svanurinn veitir á Íslandi. Húsið stendur í Urriðaholti sem er fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities).

Svansmerkið byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferilsins. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Á norðurlöndunum hefur Svansvottun bygginga átt mikilli velgengni að fagna þar sem Svanurinn býður upp á skilvirkt vottunarkerfi sem sýnir fram á umhverfislegan ávinning.

Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar eru umfangsmikil og taka til margra ólíkra þátta sem eiga að stuðla að betri gæðum fyrir umhverfi og heilsu þeirra sem nota bygginguna. Það eru því strangar kröfur varðandi efnanotkun, val á byggingarefni og innivist. Til að uppfylla kröfurnar þarf að ná lámarksfjölda stiga og var stigum náð m.a. með því að við hönnun hússins að Urriðaholtsstræti var áhersla lögð á að stuðla að betri hljóðvist og þar af leiðandi að betri innivist fyrir íbúa. Tekin voru skref til að minnka þörfina fyrir steypu, en framleiðsla sements hefur mikil umhverfisáhrif í för með sér. Einnig voru notaðar vistvænar lausnir fyrir íbúa, þar má nefna handbók fyrir húsið þar sem vistvænum áherslum í rekstri byggingarinnar er komið á framfæri við íbúa hússins og þeir hvattir til þess að taka þátt. Áhersla var lögð á vistvænar samgöngur og settur upp viðgerðarstandur fyrir hjólreiðafólk og verða hleðslustöðvar fyrir rafbíla á bílastæði.

Húsið að Urriðaholtsstræti er annað húsið sem fær Svansvottun á Íslandi, en einbýlishús í sama hverfi fékk vottun í lok árs 2017. Uppbygging svansvottuðu húsanna í Urriðaholti hefur haft mjög jákvæð áhrif á íslenska birgja, sem hafa séð tækifæri í verkefninu og hefur úrval af vottuðu/samþykktu byggingarefni hérlendis aukist til muna. Vottunin í dag er því mikilvægt skref sem mun eflaust reynast hvati fyrir fleiri íslensk byggingarfyrirtæki að fylgja í kjölfarið.

Fleiri fréttir