fbpx
7. júní 2024

Hástökkvari Svansins: Byggingargeirinn

Undanfarin ár hefur orðið áberandi vakning innan byggingargeirans á Íslandi. Fyrirtæki sjá í auknum mæli sinn hag í að hoppa á vagninn og taka betri og meðvitaðri ákvarðanir fyrir umhverfið, bætta innivist og meiri lífsgæði.

Af þeim umsóknum sem Svaninum hefur borist síðustu tvö ár eru byggingarverkefni í miklum meirihluta. Þessi jákvæða þróun sem hófst í Svíþjóð hefur dreifst hratt og örugglega til allra Norðurlandanna. Fyrsta umsóknin fyrir Svansvottaða nýbyggingu barst til Umhverfisstofnunar um mitt ár 2016. Frá árinu 2021 hefur fjöldi umsókna aukist á miklum hraða og eru síðustu tvö ár metár í umsóknum um Svansvottaðar byggingar. Þegar fjöldi verkefna er borinn saman við hin Norðurlöndin er gaman frá því að segja að Ísland er í fyrsta skipti með fleiri íbúðareiningar í vottunarferli en Finnland.

„Hækkunin bendir til þess að Svansmerkið sé umhverfismerki sem sífellt fleiri framkvæmdaraðilar kjósa og sjá hag sinn í að fylgja“ segir Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins.

Svansvottuð bygging uppfyllir strangar kröfur um allan lífsferilinn. Byggingarnar einkennast af minni orkunotkun og góðri innivist og um þær gilda strangar kröfur um umhverfis- og heilsuspillandi efna- og byggingavörur.

Fleiri fréttir