fbpx
20. mars 2012

Prentsmiðjan Umslag Svansvottuð

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar afhenti Sölva Sveinbjörnssyni, framkvæmdarstjóra prentsmiðjunnar Umslags ehf. vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins í húsnæði fyrirtækisins að Lágmúla 5 þann 16. mars. Allir starfsmenn prentsmiðjunnar Umslags ehf., ásamt fyrrum eiganda prentsmiðjunnar, voru viðstaddir afhendingu vottunarinnar þann.

Umslag ehf. hefur lengi sinnt umhverfismálum vel og hlaut til að mynda Umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2003 og stefnt lengi að Svansvottun. Kristín Linda Árnadóttir talaði um við afhendinguna að Umslag ehf. væri ekki eingöngu að hljóta hag af slíkri vottun heldur þjóðfélagið allt með auknu úrvali Svansvottaðrar vöru fyrir neytandann og um leið minna álagi á umhverfið. Prentsmiðjan Umslag ehf. er sjöunda prentsmiðjan á Íslandi til að hljóta Svansvottun og bætist því í ört stækkandi hóp Svansmerktra fyrirtækja, en þau eru nú orðin 18.

Sífellt aukinn áhugi er á Svansvottun fyrirtækja og hafa þónokkur fyrirtæki sótt um vottunina til Umhverfisstofnunar í ár. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.

Fleiri fréttir