fbpx
25. nóvember 2016

SORPA fær Svansleyfi

Þann 22. nóvember var SORPU bs. formlega afhent svansleyfi fyrir metangasframleiðslu sína. Fyrirtækið er með þessu fjórða fyrirtækið á Norðurlöndunum sem hlýtur vottun undir viðmiðum Svansins fyrir eldsneyti og það fyrsta á Íslandi. Metangasið er framleitt úr hauggasi sem myndast á urðunarstað SORPU í Álfsnesi.

Á síðustu árum hefur gasið m.a. verið notað á sorpbíla Reykjavíkurborgar en einnig er nokkuð um metanbíla og metantvinnbíla á götum borgarinnar. Árið 2015 samsvaraði framleiðslan um 2 milljónum bensínlítra og er umhverfislegur ávinningur fyrir samfélagið mikill.

Vottunin tekur tillit til alls lífsferils metans sem framleitt er af fyrirtækinu. Með Svansvottuninni er staðfest að framleiðsla og notkun eldsneytisins stuðli að lágmarks losun gróðurhúsalofttegunda og að orkunotkun í framleiðsluferlinu sé í lágmarki. Vottunin er einnig háð því að eldsneytið mæti sjálfbærniviðmiðunum Evrópureglugerðar um endurnýjanlega orkugjafa og kröfum um gæði eldsneytisins. Einnig er lögð áhersla á vinnuskilyrði á framleiðslustað.

Sorpa er 34. fyrirtækið á Íslandi sem hlýtur Svansvottun og bætist því í stöðugt stækkandi hóp Svansmerktra fyrirtækja. Leyfið fellur undir viðmið fyrir Eldsneyti og lífgas fyrir upphitun og iðnaðarnotkun.

Svanurinn stuðlar að sjálfbærari neyslu og er einstaklega ánægjulegt að íslenskum neytendum sé boðið upp á umhverfisvottað eldsneyti. Umhverfisstofnun óskar SORPU bs. innilega til hamingju með árangurinn og samstarfið.

Svanurinn – fyrir umhverfið og heilsuna.

Fleiri fréttir