fbpx
6. október 2023

Svona forðastu grænþvott

Er fyrirtækið þitt að selja umhverfisvænni vöru sem þið viljið miðla til viðskiptavina?

Grænþvottur er þegar fyrirtæki setur fram rangar eða villandi upplýsingar um umhverfiságæti eigin vöru. Grænþvottur er græn markaðssetning sem gefur til kynna að frammistaða seljandans sé betri eða ágæti vörunnar eða þjónustunnar meira frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar en „innistæða er fyrir“.

Íslendingar eru mjög meðvitaðir um eigin umhverfisáhrif og flestir gera sitt besta til að versla umhverfisvænna. Framleiðendur hafa brugðist við þessu með að reyna að lyfta upp þeim vörum í sínu vöruframboði sem eru betri kostur fyrir umhverfið og reyna þannig að auðvelda neytendum valið. Þetta getur leitt til grænþvottar sem birtist í óútskýrðum fullyrðingum, röngum upplýsingum eða villandi orðanotkun. Íslendingar eru heilt yfir þreyttir á yfirlýsingum um umhverfislegt ágæti vöru og trúa sífellt minna á slíkar yfirlýsingar.

Hér eru 7 ráð til að forðast grænþvott:

 1. Verið nákvæm
  Forðist loðið orðalag og hafið í huga að öll framleiðsla hefur í för með sér einhver áhrif á umhverfið svo sem losun gróðurhúsalofttegunda og mengun. Engar vörur eru 100% sjálfbærar! Segið nákvæmlega að hvaða leyti varan er umhverfisvænni en sambærileg vara. Til dæmis „framleitt með 30% minna vatni“ eða „inniheldur ekki hormónaraskandi efni“.
 2. Verið viss um að þið séuð með gögn til að sanna allar fullyrðingar
  Ef þið segið að varan sé framleidd með 30% minna vatni en sambærileg vara verðið þið að eiga gögn sem sýna fram á og sanna að sú fullyrðing sé rétt. Gögnin þurfa að sýna vatnsnotkun við framleiðslu á ykkar vöru í samanburði við aðra vöru.
 3. Verið viss um að upplýsingarnar eigi við
  Fullyrðingar sem þið setjið fram þurfa að eiga við vöruna sjálfa og skipta máli fyrir heildarumhverfisáhrif hennar. Ef þú ætlar að markaðssetja gallabuxur sem umhverfisvænar er ekki nóg að heimsendingin sé á rafbíl eða að fyrirtækið notist aðeins við rafræna reikninga þar sem slíkt á ekki við um umhverfisáhrif buxnanna sem slíkra.
 4. Setjið vöruna í samhengi við stöðuna á markaðnum
  Ef þið haldið því fram að varan sé umhverfisvænni en vara keppinautar verður að vera hægt að sýna fram á það (sjá punkt 2) en einnig ætti ekki að nota fullyrðingar í markaðssetningu sem vísa til lágmarksviðmiða samkvæmt lögum. Til dæmis að snyrtivara innihaldi ekki formaldehýð sem hefur verið bannað innan ESB.
 5. Verið varkár í notkun myndefnis og lita
  Myndmál, lógó og litir geta látið vöruna líta út fyrir að vera umhverfisvænni en þú getur sýnt fram á. Grænt laufblað eða grænn hnöttur á umbúðunum eru líkleg til að fella ykkur í grænþvottaprófinu. Notist frekar við myndmál sem tengist ykkar sérstöðu, til dæmis sem tengist minni vatnsnotkun ef það er umhverfisþátturinn sem gerir vöruna sérstæða.
 6. Ekki spila á ótta og samviskubit
  Ekki notfæra þér þá staðreynd að sumir neytendur hafa miklar áhyggjur af umhverfismálum, ekki ala á ótta. Enginn bjargar heiminum með að kaupa vöruna þína! Það væri betra fyrir umhverfið að kaupa ekkert 🙂 Aftur – verið nákvæm og hreinskilin um að hvaða leyti varan er betra val.
 7. Notið trúverðugar vottanir
  Neytendur bera lítið traust til eigin umhverfisyfirlýsinga fyrirtækja en umtalsvert meira traust til traustverðugra umhverfisvottana eins og Svansins. Sækist eftir óháðri vottun á vöruna ykkar!

Fleiri fréttir